Að fá sér hund

Það fylgir því töluvert meiri vinna að halda hund en t.d. kött. Því fylgja skyldur og eigandinn þarf að leggja sig allan fram ef hann ætlar að njóta bestu eiginleika sinnar hundategundar. Skynsamleg umönnun og athygli er forsenda þess að hundurinn verði hlíðinn og heilbrigður. Í raun ætti hundahald ekki að vera of tímafrekt og ætti að vera mjög ánægjulegt bæði fyrir hund og mann.

Þjálfun hundsins veitir þér líka góða líkamlega þjálfun. Því meiri tíma sem þú eyðir með hundinum þínum því fleiri af eiginleikum hundsins verða þér ljósir. Ef þú vilt afla þér meiri þekkingar um hundinn þinn, eða aðrar tegundir, geturðu talað við ræktendur eða dýralækninn þinn, eða aflað þér upplýsinga úr bókum um hinar ýmsu tegundir. Það er sama hvernig hund þú færð þér, hann mun endurgjalda umhyggjuna sem þú gefur honum og þú munt hafa mikla ánægju af honum.

Athugaðu:

Það er margt sem þarf að athuga þegar fjölskyldan ætlar að fá sér hund.

  • Hvað vill ég að hundurinn geti gert?
  • Hversu mikið mun hann borða?
  • Hef ég efni á hundagjaldinu og því að fara reglulega með hann til dýralæknis?
  • Hef ég tíma til að fara reglulega með hundinn í göngutúra?
  • Get ég verið fullviss um að veita honum alla þessa umhyggju allt hans líf (um 12 ár að meðaltali).
  • Er öll fjölskyldan tilbúin að axla þessa ábyrgð?

Valið milli hunds eða tíkur getur verið erfitt

Hund eða tík?

Það getur verið erfitt að velja á milli þess hvort þú ættir að fá þér hund eða tík. Augljósasti munurinn er sá að tíkur fara á lóðarí (blæðingar) tvisvar sinnum á ári.

Á þeim tíma getur hún strokið í leit að maka og gefur einnig frá sér lykt sem laðar að rakka.

Einnig kemur blóð frá sköpunum sem tíkurnar eru duglegar að þrífa, sumar tíkur geta einnig verið gjarnar á að fá svokallaða gervióléttur og veldur það eigendum oft áhyggjum.

Ófrjósemisaðgerðir eða langvarandi notkun ófrjósemislyfja getur aukið töluvert á kostnaðinn við það að eiga tík frekar en hund.

Hundarnir eru oft taldir vera með jafnari skapgerð en það er auðvitað möguleiki að þeir fari frekar á flakk ef tík er á lóðaríi í nágrenninu.

Að sama skapi eru tíkur taldar heimakærari.

Þegar þú færð þér hund skoðaðu þá:

Aðstöðu: Skoðaðu aðstöðu móðurdýrs og afkvæma.

Útlit: Heilbrigður hvolpur á að vera glaður og ánægður með að vera tekinn upp. Líkaminn á að vera stinnur en afslappaður, hundurinn á ekki að sýna nein merki um sársauka.

Eyrun: Lyftu upp eyrnablöðkunum og skoðaðu í eyrnagöngin, þau eiga að vera þurr, hrein, laus við hrúður eða klístrað innihald og án hverskonar útferðar.

Kjaftur: Lyftu varlega upp vörunum til að skoða tunguna, gómana og tennurnar. Tungan og gómarnir eiga að vera bleik. Tannbitið, staðsetning efri og neðri tanna, er mikilvægt sérstaklega í hreinræktuðum hundum, vegna hundasýninga. Talaðu við dýralækni ef þú ert í vafa með tannbit.

Augun: Þau eiga að vera hrein, björt og laus við útferð, tár eða ský á hornhimnum. Hundurinn á að geta haldið augunum opnum til fulls án þess að þurfa að blikka mikið.

Feldur og húð: Feldurinn á að vera hreinn, gljáandi, þéttur og laus við flösu. Húðin á að vera laus við húðsýkingar. Renndu höndunum í gegnum feldinn og skoðaðu hann við skinnið.

Endaþarmur: Líttu undir rófuna á hundinum og aðgættu hvort endaþarmssvæðið sé nokkuð skítugt, með blautum saur, sem gæti verið merki um niðurgang.

Athugaðu:

Virtu hundinn vel fyrir þér áðun en þú velur, hafðu eyrun vel opin gagnvart afsökunum eigandans ef eitthvað er athugavert við útlit og skap hundsins.

Ef þú ert í vafa láttu þá dýralækni skoða hundinn, helst áður en þú kaupir hann og áður en þú ferð með hann heim til fjölskyldunnar.

Ein af þeim skyldum sem fylgir því að vera með hund er að fara með hann reglulega tildýralæknis í heilsufarsskoðun og bólusetningar. Fyrsta skoðun fer fram um það leyti er þú tekur við hvolpinum eða við 8-12 vikna aldurinn og halda síðan áfram með reglulegu millibili (1*á ári), þar til hundurinn er orðinn aldraður.

Á Íslandi er bólusett gegn tveimur smitandi sjúkdómum (sjá nánar smitsjúkdómar) þ.e.a.s. parvovírus og smitandi lifrarbólgu (HCC). (Hvorugur þessara sjúkdóma smitast yfir í fólk.)
Hundar eru bólusettir fyrst við 8-12 vikna aldurinn og grunnbólusetningin endurtekin 4 vikum seinna. Ef hvolpar eru teknir frá móður sinni um 8 vikna aldurinn getur verið nauðsynlegt að bólusetja þá þrisvar sinnum. Síðan er endurbólusett árlega.
Skynsamlegt er að ormahreinsa hunda 3-4 sinnum á ári. Kynntu þér ormasmit í hundum hjá dýralækninum þínum. Athugið að hundar geta smitast af parvovírus og lifrarbólgu á margan hátt, t.d. ef eigendur eða fjölskyldumeðlimir umgangast hunda á öðrum stöðum.
Ef hundurinn verður veikur eða verður fyrir slysi þarf hann að fara til dýralæknis og þangað koma margir hundar sem felur í sér töluverða smithættu. Einnig er það skylda að hafa hunda bólusetta ef þeir þurfa að gista á hundahótelum.

Athugaðu:

Dýralæknastofan bíður upp á alhliða meðhöndlun á sjúkdómum dýra. Röntgenaðstöðu, blóðrannsókn, skurðaðgerðir, sónarskoðun, rúmgóða biðstofu, verlsun með fóður og ýmislegt tengt dýrahaldi, vingjarnlegt viðmót og umfram allt góða þjónustu við þig og gæludýrin þín.

Neyðarþjónusta
Tímapantanir
Ráðgjöf
Fróðleikur
Vefverslun