30 ára saga spítalans

30 ára saga spítalans

Fyrir nær 30 árum síðan var Dýralæknastofan í Garðabæ stofnuð í rúmlega 50 fm. húsnæði við Lyngás 13 í Garðabæ. Stofnandi hennar var Bernharð Laxdal. Fimm árum síðar eða fyrir nær 25 árum tóku núverandi eigendur Hanna María Arnórsdóttir og Jakobína Björk Sigvaldadóttir dýralæknar, við rekstri stofunnar og var hún stækkuð upp í 220 fm. og varð þá einn stærsti smádýraspítali á landinu.

Það húsnæði varð síðan of lítið fyrir starfsemina enda störfuðu þá orðið 4 dýralæknar við stofuna auk aðstoðamanna. Þess vegna var kominn tími á stærra húsnæði sem fannst loks eftir langa leit. Eftir gagngerar endurbætur á húsnæðinu var loksins komið að þeirri stund að við fluttum. Mánudaginn 10. desember 2007 hófum við síðan starfsemi á nýja spítalanum og jafnframt aðlöguðum við nafnið að þeim breytingum sem höfðu orðið. Dýraspítalinn í Garðabæ, með aðsetur hérna að Kirkjulundi 13 við Vífilstaðaveg. Nýi spítalinn var um 430 fm og sérhannaður sem dýraspítali með öllu því sem slíkri starfsemi fylgir. Árið 2016 var aftur orðið vel þröngt um okkur og þegar svo vel vildi til að húsnæðið að Kirkjulundi 17, nánast beint á móti spítalanum losnaði var tekin sú ákvörðun að flytja hluta starfseminnar þangað yfir og erum við því í um 1100 fm. í dag. Þannig gátum við gert ákv. breytingar á spítalanum sjálfum, útbúið góða vinnuaðstöðu fyrir dýralæknana og útvíklað starfsemina í takt við auknar kröfur gæludýraeigenda. Þar er helst að nefna að opnaður var sér kattaspítali þar sem fram fara árlegar skoðanir og frumskoðanir eingöngu á köttum.

Í dag starfa nefnilega á spítalanum 11 dýralæknar, 5 dýrahjúkrunarfræðingar, 4 dýrahjúkrunarnemar ásamt 7 öðrum starfsmönnum og atferlisráðgjafa á stofunni. 
Auk þess erum við alltaf með einhverja dýrahjúkrunarnema í praktik hjá okkur.

Eftir breytingarnar hjá okkur erum við með fjögur stór og björt skoðunarherbergi, stóra vel tækjum búna skurðstofu, sónarherbergi, myrkvað herbergi með möguleika t.d. til augnskoðunar, röntgenherbergi þar sem myndirnar eru teknar á stafrænan máta, sérgert aðgerðarrými þar sem sérsmíðað T- aðgerðaborð tryggir að vel fari um dýrin meðan á aðgerð stendur, sérgert tannaðgerðarrými, fullbúna rannsóknarstofu, MRI segulómtæki, það eina á landinu fyrir dýr, einangrunarherbergi f. dýr með smitsjúkdóma, aðskilin hunda- og katta innlagnarherbergi og sér rými þar sem dýrin vakna upp eftir aðgerðir og möguleiki er á að vakta þau allan tímann og fyrirlestrasal ásamt ýmsu fleiru.

Ekki má gleyma að hjá okkur er að auki stór og björt búð með mikið úrval af hágæða gæludýrafóðri ásamt sjúkrafóðri og fleiri vörum fyrir dýrin.

Verið velkomin á spítalann okkar.

Kveðja,
 starfsfólk Dýraspítalans í Garðabæ.

Neyðarþjónusta
Tímapantanir
Ráðgjöf
Fróðleikur
Vefverslun