Að fá sér kött

Að fá sér kött inn á heimilið getur haft töluverðar breytingar í för með sér fyrir aðra fjölskyldumeðlimi.
Bæði veitir það mikla ánægju en skyldurnar eru líka margar og ef þú telur þig ekki geta uppfyllt þær og veitt kisa þá umhyggju sem hann þarf ættirðu að hugsa þig tvisvar um.
Einnig þarf að athuga hvers konar köttur hentar þér og þínum fjölskylduaðstæðum.

  • Viltu kettling eða fullorðinn kött?
  • Hreinræktaðan eða blending?
  • Snögghærðan eða loðinn (síðhærðan)?

ATHUGAÐU:

  • Kettlingar þurfa tíma til að þroskast og læra á umhverfið sitt, þeir hafa mikla orku sem þeir þurfa að nota og eru því oft miklir ólátabelgir og fjörkálfar.
  • Einnig þurfa þeir frið til að hvílast.
  • Ráðlegt er að hafa kettling á góðu þurrfóðri (nær eingöngu) og vatni til drykkjar.
  • Verið staðföst í matarvenjum, það fyrirbyggir vandamál tengdum mat síðarmeir.

Þegar þú velur þér kettling þarftu að taka tillit til hvaða heimilisaðstæður voru þar sem hann fæddist og ólst upp. Fyrstu 2-3 mánuðina mótast kettlingurinn mjög af umhverfi sínu og það hefur mikil áhrif á persónuleika hans síðar í lífinu. Hvernig var móðirin í skapi og var hún heilbrigð? Ef mögulegt er skaltu fylgjast með kettlingnum að leik til að sjá hvort hann sé ekki heilbrigður o.s.fr. Kettlingar ættu ekki að fara frá móðurinni fyrr en við 9-12 vikna aldur.

SKOÐAÐU:

Eyrun: þau eiga að vera hrein án útferðar. Stanslaust klór í eyrunum getur verið merki um eyrnamaur eða eyrnabólgu.

Augun: þau eiga að vera tær, björt og án útferðar. Aðeins örlítil rönd af þriðja augnlokinu má sjást.

Nefið: það á að vera kalt og rakt, án útferðar frá nösum.

Munnur og gómar: þeir eiga að vera fölbleikir að lit og ekki illa lyktandi.

Kviður: á að vera örlítið hnöttóttur en ekki þaninn sem getur verið vísbending um ormasýkingu.

Feldurinn: hann gefur góða vísbendingu um heilbrigði kattarins. Hann á að vera þéttur og laus við flösu og hálfglansandi-glansandi, allt eftir aldri kettlingsins.

Afturendi: hann á að vera hreinn, án nokkurra einkenna um niðurgang né útferðar frá kynfærum.

Ein af þeim skyldum sem fylgir því að vera með kött er að fara með hann reglulega til dýralæknis í heilsufarsskoðun og bólusetningar. Fyrsta skoðun fer fram um það leyti er þú tekur kettlinginn eða við 12 vikna aldur og halda síðan áfram með reglulegu millibili (1*ári) þar til kötturinn er orðinn aldraður. Á Íslandi er bólusett fyrir tveimur smitandi sjúkdómum og stundum þeim þriðja - sjá neðar á síðunni. Þessir sjúkdómar eru kattarfár og kattainfluensa en sá þriðji er chlamydiusýking (þó ekki sú sama og kynsjúkdómur í fólki). Enginn þessara sjúkdóma smitast yfir í fólk. Kettlingarnir eru bólusettir fyrst við 10-12 vikna aldur og grunnbólusetningin endutekin 4 vikum seinna. Síðan er endurbólusett árlega. Ráðlegt er að ormahreinsa kettlingana á sama tíma. Athugið að kettir geta smitast af kattafári og kattainfluensu án þess að yfirgefa heimili sitt, t.d. ef eigendur eða fjölskyldumeðlimir umgangast ketti á öðrum heimilum. Ef kisi verður veikur eða verður fyrir slysi þarf hann að fara til dýralæknis og þangað koma margir kettir sem felur í sér töluverða smithættu fyrir kisa. Einnig er það skylda að hafa kettina bólusetta ef þeir þurfa að gista á kattahótelum. Þó að innikettir fái síður ormasmit kemur það fyrir, þeir geta borið það í sér frá móðurinni (gegnum móðurmjólkina) eða ef þeir veiða t.d. mús.

ATHUGAÐU:

Dýralæknastofan bíður upp á alhliða meðhöndlun á sjúkdómum dýra. Röntgenaðstöðu, blóðrannsókn, skurðaðgerðir, sónarskoðun, rúmgóða biðstofu, verlsun með fóður og ýmislegt tengt dýrahaldi, vingjarnlegt viðmót og umfram allt góða þjónustu við þig og gæludýrin þín.

Neyðarþjónusta
Tímapantanir
Ráðgjöf
Fróðleikur
Vefverslun