Fæðubótarefni fyrir dýr

Fitusýrur, sérstaklega fjölómettaðar fitusýrur (EFA) eru nauðsynlegar bæði dýrum og mönnum. Þær fitusýrur sem dýrin geta ekki myndað sjálf verða þau að fá úr fóðrinu eða sem bætiefni. Skortur á þessum fitusýrum getur haft í för með sér mattan og þurran feld sem síðan getur leitt til aukins hárloss og kláða. Einnig geta sár verið lengur að gróa. Þessum lífsnauðsynlegu fitusýrum er skipt í tvo flokka: omega-3 og omega-6 fitusýrur.

Omega-3 fitusýrur koma aðallega úr fiski og þörungum og eru EPA og DHA þeirra mikilvægastar. Þær halda meðal annars jafnvægi milli omega-6 og omega-3 fitusýranna og hjálpa þannig ónæmiskerfinu að ráða niðurlögum á sýkingum.

Omega-6 fitusýrur eru unnar úr ákveðnum plöntum og innihalda linolsýru (LA) og gamma linolensýru (GLA). Rannsóknir hafa sýnt að GLA eru mikilvægar í baráttunni við húð-, gigtar- og ofnæmisvandamál.

Mikilvægi GLA. Linolsýra (LA) finnst í miklu magni í venjulegri plöntuolíu en nýtist ekki dýrinu á því formi. Það er ekki fyrr en búið er að ummynda linolsýru yfir í GLA, með hjálp efnahvata, að þær nýtast dýrinu. Ef ekki er nóg til af efnahvötum til að umbreyta LA yfir í GLA geta komið upp hörguleinkenni á GLA sem lýsir sér sem ýmiskonar húðvandamál. Þættir sem m.a. geta leitt til skorts á efnahvötum eru t.d. elli, sumar fóðurtegundir, lyf og ýmsir langvinnir sjúkdómar (t.d. sykursýki og lifrarsjúkdómar). Það er því mikilvægt að einmitt þessi hópur sjúklinga fái aukaskammta af GLA.

Hvernig gef ég hundinum og/eða kettinum mínum EFA? Til eru margar tegundir af fæðubótarefnum sem innihalda fjölómettaðar fitusýrur. Sumar vörur eru bæði til í fljótandi formi og sem hylki. Mikilvægt er að umbúðirnar séu hannaðar með það í huga, að sem minnst af súrefni komist að olíunni svo virkni hennar vari sem lengst. Hægt er að kaupa slík fæðubótarefni hjá dýralækninum og víða í gæludýrabúðum og apótekum.

Neyðarþjónusta
Tímapantanir
Ráðgjöf
Fróðleikur
Vefverslun