Gelding hunda

Hvenær?

Almennt er ekki ráðlagt að gelda hvolpa/hunda fyrr en í fyrsta lagi 14 -18 mánaða. Ástæðan fyrir þessu er bæði vegna félagsþroska og líkamsþroska. Hundar þurfa að fá tækifæri til að klára meginþorra félagsþroskans ásamt því að kynhormónin eru mikilvæg fyrir vöxt og þroska liða og beina. Hormónatengt atferli festist ekki í sessi fyrr en í fyrsta lagi eftir 2 ára aldurinn, því er nógur tími til að grípa inn í á milli 14 og 24 mánaða aldurs. Sama á við um hvolpa sem eru eineistungar. Sumar tegundir hunda eru í áhættuhóp þegar kemur að t.d. að slíta krossbönd og þá er gelding ekki góður kostur þar sem mikilvægt er að vöðvar og liðir nái að þroskast samfara stækkun beina.

Kvíði/hræðsla

Kynhormónar geta verið mikilvægir hundum sem þjást af kvíða þar sem þeir veita ákveðið hugrekki og auðvelda því hundum að yfirstíga hluti sem þeir geta skynjað sem „hættulega“ og fá því þannig tækifæri til að læra.

Lyfjagelding

Geldingastafur getur verið góður kostur fyrir eldri og veikari hunda, en einnig til að ath hvort gelding hafi yfirhöfuð tilætluð áhrif. Einnig er það ágætur kostur í að lyfjagelda hund til að koma í veg fyrir óæskilega pörun. Stafurinn tekur 6 vikur að virka að fullu en virkar annars vegar í 4-6 mánuði (lítill stafur) eða 12-18 mánuði (stór stafur). Geldingastafur er ekki krabbameinsvaldandi og hefur ekki áhrif á frjósemi eftir að hann hættir að virka.

Merkingar

Sumir sérfræðingar halda því fram að merkingar minnki um allt að 70%, sumir hundar hætta að merkja inni. Ef hundurinn er ekki húshreinn fyrir hefur gelding lítil áhrif á pissustand inni við. Hundar hætta aldrei alveg að merkja enda er þetta náttúruleg leið fyrir þá að koma skilaboðum til annarra hunda.

Algengar spurningar

  • Hömpa: hundar hömpa í leik, þegar þeir eru óöryggir og þegar þeir eru æstir og þurfa útrás fyrir streitu. Þetta getur verið streitueinkenni. Kenna þarf hundum æskilega hegðun og ekki er víst að gelding hafi mikil áhrif hér ef nokkur.
  • Verði hundur árásargjarn gagnvart öðrum hundum: slíkt atferli er yfirleitt lærð hegðun og því er ráðlagt að leita til atferlisfræðings áður en gelding er ákveðin. Hér gæti geldingastafur verið góður kostur fyrst, til að athuga hvort kynhormónin hafi áhrif.
  • Strok: að strjúka eru oft merki um að hundurinn fái ekki uppfyllt þörf fyrir hreyfingu og örvun og því sækir hann í að bæta sér það upp á eigin spýtur. Þetta er líka oft lærð hegðun og í samráði við atferlisfræðing væri geldingastafur góður kostur til að skoða hvort það hafi áhrif.
  • Verði ekki æstir: æsingur er einstaklingsbundinn, sumir hundar eru örari en aðrir og þurfa því meiri hreyfingu og örvun en aðrir, og mikilvægt er að uppfylla þarfir hundsins en ekki okkar hjá þessum hundum. Sumir hundar þurfa 3 klst hreyfingu á dag á meðan öðrum nægir 30-60 mínútur. Gelding er ekki fyrsti kostur og ekki fyrirbyggjandi fyrir þessa hunda.
  • Ætíð er hægt að hafa samband við Dýraspítalann Garðabæ ef frekari spurningar vakna.
Neyðarþjónusta
Tímapantanir
Ráðgjöf
Fróðleikur
Vefverslun