Gelt og ýlfur

Gelt og ýlfur er hegðun sem hefur verið ýkt hjá hundum í gegnum ræktun til margra ára. Í mörgum tilfellum er gelt tegundareinkenni sumra hunda eins og hjá “terrier” hundum sem eiga auðvelt með að gelta og gera það í háum tóni. Margar veiðihundategundir gelta oft við litla örvun og taka undir í gelti með hópi hunda sem gelta. Það breytir samt ekki því að hundar sem láta vel að stjórn eiga ekki að gelta ótæpilega í fjarvist eigenda sinna og eiga heldur ekki að gelta þegar sagt að hafa hljóð í návist þeirra.

Gelt er í mögum tilfellum nauðsynlegur eiginleiki eins og þegar á að vara við aðsteðjandi hættu, reka fé í smalamensku eða láta vita af sér við önnur tækifæri. Það sem er slæmur fylgifiskur er óstjórnlegt gelt við öll möguleg og ómöguleg tækifæri og verður oft til þess að kvartanir berast um hávaða, meðlimir fjölskyldunnar fá andúð á samveru við hundinn eða útivera með honum verður meiri kvöð eða óþægindi heldur en ánægja.

Í mörgum tilfellum vilja eigendur að hundurinn láti vita ef hætta steðjar að eða hafa áhyggjur af að hundurinn verði ekki lengur “varðhundur” ef honum er kennt að þegja þegar hann heyrir þrusk eða hljóð sem fær hann til að gelta. Þessar áhyggjur eru óþarfar, hundum er eðlislægt að vera á varðbergi um hópinn sinn (fjölskylduna) þannig að hann mun bregðast við einkennilegum hljóðum, mannaferðum og þá sérstaklega á óhefðbundnum tímum eins og að nóttu. Hundar sem ekki bregðast við þegar blöðum eða pósti er stungið inn um bréfalúgu eru ekki vonlausir varðhundar, þeir eru e.t.v. bara nógu skynsamir til að átta sig á að engin hætta stafar af þessum mannaferðum. Það er yfirleitt lærð hegðun hjá hundum að bregðast við með gelti þegar pósturinn kemur og hundurinn verðlaunar sig með því að hafa fullnaðar sigur í hvert skipti sem honum tekst að reka “óvættinn” í burtu.

Hvað er eðlilegt og hvað ekki?

Það er eðlilegt að hundar gelti þegar þeir upplifa aðstöðu eða umhverfi sem gerir þá óörugga með sig, þeir ættu þá að láta það í ljós með gelti á sama tíma og þeir leita eftir viðbrögðum eiganda. Þetta getur verið á heimilinu, við umferð fyrir utan húsið, í garðinum þegar einhver kemur aðvífandi, í göngutúr þegar fólk mætist, þegar annar hundur nálgast eða t.d. farartæki eins og hjól, skellinöðrur eða strætisvagnar nálgast og hundarnir hafa e.t.v. ekki vanist því áður.

Það er ekki eðlilegt að hundurinn gelti án afláts eftir að honum hefur verið gefið merki um að stoppa, gelti stanlaust þangað til vegfarendur eru farnir framhjá, gelti úti í garði að hlutum sem hreyfast í kringum garðinn þangað til þeir eru úr augsýn, gelti í bílnum að öllu sem hreyfist, gelti í hvert sinn sem pósturinn eða blaðberinn setur eithvað inn um lúguna eða gelti án afláts við útidyrnar þegar gestir koma eða einhver úr fjölskyldunni er að koma heim. Það er heldur ekki eðlilegt að hundar gelti þegar þeir eru einir heima hvort heldur sem er í stuttan eða lengri tíma.

Hvað er til ráða?

Lykillinn að því að ráða bót á óæskilegu gelti er að komast að því hvað það er sem kemur geltinu af stað og laga það. Þetta hljómar einfalt og það er það en hafa skal í huga að þó ástæðan sé einföld eins og t.d. það að pósturinn komi að útidyrahurðinni og komi af stað geltinu þá getur það verið töluverð vinna að eiga við svo að árangur náist. Það eru til nokkrar aðferðir til að nálgast þessi viðfangsefni og þær lausnir sem sagðar eru svo einfaldar að þær eru nánast of einfaldar til að vera sannar eru það yfirleitt, “of einfaldar til að vera sannar”. Ég mæli t.d. ekki með lausnum eins og gelt-stoppurum með spreyi eða úða sem festur er á háls hundsins og gefur frá sér úða og lykt í hvert skipti sem hundurinn geltir. Ef hundurinn geltir t.d. af völdum kvíða eða hræðslu er mjög hætt við að hann verði meira kvíðinn við að ganga í gegnum þetta. Í sambandi við gelt-stoppara með rafmagni þá segi ég bara eftirfarandi. Þeir eru ómanneskjulegir og ólöglegir í notkun og eru því ekki til umræðu.

Hvað er þá eftir til ráða! Jú þjálfun, markviss umgengni við hundinn og breyting á umhverfi hans. Allir þessir þættir geta stuðlað að varanlegri lausn á geltvanda sem er að trufla sambúð hunda við fjölskyldur sínar.

Í þeim tilfellum þar sem eingöngu eitt tiltekið atvik veldur því að hundurinn geltir án afláts og hann hlustar ekki á neinar leiðbeiningar þá getur einföld aðferð eins og “afnæming” (desensitisation) hugsanlega lagað það. Með afnæimingu er átt við að hundurinn upplifir atburðinn í sínu mildasta formi og smátt og smátt er atburðurinn gerður viðameiri og viðameiri og í gegnum ferlið er hundurinn verðlaunaður á jákvæðan hátt þegar hann bregst ekki við með því að gelta heldur sýnir rólega og afslappaða hegðun. Tökum dæmi um hund sem er alltaf til fyrirmyndar nema þegar hann hittir aðra hunda í göngu, þá geltir hann stanslaust og enginn nær sambandi við hann. Þá væri afnæmingin framkvæmd þannig að eigandinn setur á svið með einhverjum sem hann þekkir og á hund aðstæður þar sem hundarnir mætast á hlutlausu svæði. Í byrjun er haft langt bil á milli hundanna (það mikið að hundurinn bregst ekki við) síðan er bilið minnkað lítillega og eigandinn talar rólega við hundinn sinn og hvetur hann til að sitja og vera rólegan og verðlaunar hann fyrir rétta hegðun. Síðan er bilið minkað meira og svo koll af kolli þangað til hundarnir eru komnir nálægt hvorum öðrum. Að sjálfsögðu má búast við að þetta fari allt í vitleysu á einhverjum tímapunkti en það voru þá þolmörk hundsins að þessu sinni og það gengur bara betur næst (ekki hélduð þið að þetta lagaðist bara á einni æfingu var það!). Þetta er nefnilega reynt aftur og aftur þangað til árangur er orðinn viðunandi, þá má e.t.v. breyta um umhverfi eða fá ókunnugann hund og prófa þetta aftur.

Ef verið er að glíma við vanda sem er fjölþættari þá er líklegt að beita verði fleiri atriðum í meðhöndluninni. Það er nauðsynlegt að komast að því hvað veldur geltinu, er það hræðsla og þá hræðsla við hvað, er það stjórnsemi (frekja) og þá af hverju stafar þessi stjórnsemi og hvernig er best að breyta henni, er það umhverfið sem veldur og er hægt að breyta umhverfinu með því t.d. að takmarka aðgang hundsins að vissum stöðum í húsinu eða byrgja útsýni hans. Er hundurinn hlýðinn og er hann í andlegu jafnvægi á heimilinu, ef ekki þá þarf að laga það.

Það er að mörgu að hyggja þegar við ætlum að fá hunda til að hætta að gelta ef ástandið er orðið það slæmt að það er farið að trufla sambúðina. Ég vona að mér hafi tekist að benda á einhverja punkta til umhugsunar um hvort það sem gert hefur verið hingað til hafi verið skynsamlegt og áhrifaríkt til að laga gelt vandamálið. Það er ágætt að hafa það í huga þegar verið er að kenna hundum að tileinka sér nýja siði (hegðun) að þá eiga þeir eftir að gera mistök mörgum sinnum áður en þeir ná þessu fullkomlega. Einnig er mikilvægt að athuga að ef ekki hefur átt sér stað góð grunnþjálfun eða hundurinn lætur illa að stjórn eiganda er mjög mikilvægt að ná tökum á því áður en hægt er að ætlast til að árangur náist í sértækari aðgerðum í hegðunar breytingum. Það er ágætt fyrir eigendur að setja sig aðeins í spor hundsins þegar verið er að kenna þeim nýja hluti, ef hundurinn skilur ekki eða kann ekki skipunina sem honum er gefin er ólíklegt að hann geti hlýtt henni. Þegar hann kann hana er líklegt að honum mistakist öðru hverju og sé seinn í viðbrögðum þangað til hann er orðin æfður í að klára verkefnið sem til er ætlast. Þetta þekkja allir sem lært hafa á t.d. hjól eða beinskiptan bíl, það tekur smá tíma að þjálfa upp færni og hraða. Því má segja að þjálfun og endurteknar æfingar með jákvæðri umbun eru lykillinn að árangri í hundaþjálfun og það á einnig við í sambandi við óæskilegt gelt.

© Björn Styrmir
Hunda Atferlisráðgjafi
Canine Behavior Specialist
Dýraspítalinn Kirkjulundi 13
210 Garðabær

Neyðarþjónusta
Tímapantanir
Ráðgjöf
Fróðleikur
Vefverslun