Húð og feldavandamál

Húðvandamál og hárlos eru algengustu ástæður þess að hunda- og kattareigendur leiti til dýralæknis

Kláði í húð er það einkenni sem fólk tekur helst eftir hjá dýrunum sem haldin eru hvers konar húðsjúkdómum. Hundar og kettir geta klórað sér á mismunandi hátt, en oftast er um að ræða að dýrin klóri, nagi, sleiki eða nuddi sig á ákveðnum svæðum líkamans eða jafnvel út um allt. Kettir fara oftast leynt með að klóra sér og gera það vanalega í einrúmi á meðan hundar hinsvegar klóra sér þar sem þeir eru staddir hverju sinni. Vegna þessa eru margir kattaeigendur ekki vissir hvort kettirnir séu með kláðavandamál því þeir klóra sér sjaldan í návist eiganda síns og gera það einnig helst á nóttunni, sem er þeirra vökutími. Kettir með kláða geta verið óvenju kelnir og sótt mikið eftir snertingu vegna þess að það getur verið þægileg leið til að láta klóra sér. Mörg dýr klóra sér á nóttunni og það getur verið mjög þreytandi fyrir eigendurna ef dýrin sofa t.d. á gólfinu í svefnherberginu.

Nokkrir meginflokkar húðsjúkdóma

Húðsýkingar af völdum snýkjudýra (lýs, flær, eyrnamaur, húðmaur), baktería, sveppa og vírusa.

Húðsjúkdómar sem orsakast af röskun í ónæmiskerfi einstaklingsins, t.d. ofnæmi (innöndunarofnæmi, fóðurofnæmi og snertiofnæmi) eða sjálfsofnæmi (ofnæmi fyrir eigin vef).

Húðsjúkdómar sem orsakast af truflun í innkirtlastarfsemi (hormónaframleiðslu), t.d. í nýrnahettum, skjaldkirtli, fruflun í kynhormónaframleiðslu, heiladingli m.m.

Húðsjúkdómar sem orsakast af skorti á vissum næringarefnum eða röngum efnaskiptum t.d. skortur á fitusýrum, zinki, A-vítamíni o.fl.

Hvernig fer sjúkdómsgreiningin fram?

Rannsóknirnar fara að hluta til fram hjá dýralækninum og að hluta til á sérstökum rannsóknarstofum.

Húðskrap. Tekið er lítið skrap af yfirborði húðar og leitað eftir sníkjudýrum undir smásjá.

Lituð húðskröp segja til um hvort sýkingin sé af völdum baktería eða sveppa.

Sýni send til ræktunar til að fá vitneskju um hvaða bakteríur eða sveppir eru orsakavaldarnir og hvaða sýklalyf hafi besta virkni gegn þeim.

Sjúkrafæði ef grunur leikur á að um fóðurofnæmi sé að ræða.

Húðsýnatökur (biopsi).

Hormónamælingar í blóði.

Meðhöndlun

Þar sem húðvandamál geta verið svo margþætt mun rannsóknar og meðhöndlunarferlið oftast fara fram í mörgum þrepum til að einangra vandamálið stig fyrir stig. Það getur oft verið erfitt að komast til botns í vandamálum hjá dýri sem haldið er húðsjúkdómi, en ef eigandi dýrsins og dýralæknirinn geta unnið saman að lausn málsins næst oftar en ekki viðunandi árangur þar sem sjúklingurinn nær annað hvort fullu heilbrigði eða nær ásættanlegum bata með hjálp langvarandi (ævilangrar) lyfjameðferðar.

Neyðarþjónusta
Tímapantanir
Ráðgjöf
Fróðleikur
Vefverslun