Kirsuberjaauga

Hvað er kirsuberja auga (,,cherry eye”). Cherry eye er sjúkdómur sem lýsir sér í því að tárakirtillinn í þriðja augnloki augans úthverfist og sést greinilega í horni augans sem slétt, rautt og stundum þrútið ílangt þykkildi, sem líkist kirsuberi og fær sjúkdómurinn hið erlenda nafn sitt af því. Þessi veikleiki þekkist bæði hjá hundum og köttum, en er mun algengari hjá hundum.

Orsakir þess að tárakirtillin úthverfist er tvíþætt. Annað hvort er bandvefurinn sem heldur kirtlinum á réttum stað, og festir hann við stoðvef augans, ekki full þroskaður eða ekki hreinlega ekki til staðar. Hin er sú að kirtillinn bólgnar upp af einhverri ástæðu og þrýstist út vegna stærðar sinnar. Sýnt hefur verið fram á ættgengni hjá ákveðum hundategundum t.d.: beagle hundum, bolabítum (bulldog), cocker spaniel tegundum, stóra dana, Lhasa apso, Peking hundum og shih tzu. Og einstaka kattategundum t.d. Burma köttum.

En sjúkdómurinn, þá sérstaklega bólginn og eða sýktur tárakirtill, getur komið upp hjá hvaða einstaklingi sem er.

Hvað er til ráða? Ef einkennin er bólginn kirtill og lítil stækkun, er hægt að freistast til að ná honum í eðlilega stærð með bólgueyðandi augndropum. En eigandinn verður að vera duglegur að ýta kirtlinum í rétta stöðu og nota augnsmyrsli, svo utanað komandi erting minnki eða hverfi.

Hins vegar ef kirtilinn er mjög stór, eða bandvefsgalli er til staðar er eina leiðin til að koma kirtlinum í rétta stöðu einföld skurðaðgerð.

Til eru nokkrar aðferðir við að koma kirtlinum í rétta stöðu og nefni ég tvær þeirra hér. Önnur er kennd við Dr. Morgan, og gengur út á að búinn er til vasi eða poki innan á þriðja augnlokinu sem tárakirtillinn er saumaður inn í. Hin er kennd við Dr. Gross og er tárakirtillinn þá festur við stoðvef augans sem liggur alveg upp við beinaumgjörðina undir þriðja augnlokinu. Báðar aðferðirnar eru viðurkenndar af sérfræðingum, en sú seinni er töluvert flóknari en sú fyrri. Þeir dýralæknar sem hafa náð tökum á báðum aðferðum nota yfirleitt þá seinni við mjög stóra kirtla.

Í ákveðnum tilfellum, þá sérstaklega ef sýking er til staðar, eða kemur upp eftir aðgerð, þá getur saumurinn sem kirtillinn er festur með, eyðst of hratt og þá brýst hann út aftur áður en skurðurinn hefur gróið almennilega. Einnig getur kirtillinn bólgnað upp aftur og hreinlega brotist út eða losnað aftur. Í þessum tilfellum er lítið annað að gera en að endurtaka aðgerðina. Oft þarf að byrja sýklalyfameðferð með aungdropum fyrir að gerð til að koma í veg fyrir þetta. Ef ekki er um sýkingu að ræða fær dýrið fyrirbyggjandi meðferð eftir aðgerð.

Áður fyrr var talið best að fjarlæga kirtilinn, og þar með vandamálið. Tíminn og margvíslegar rannsóknir hafa hins vegar leitt í ljós að tárakirtillinn framleiðir um og yfir 37% af táravökva augans, og við að fjarlægja hann getur dýrið þjást seinna meir af þurru auga (keratoconjunctivitis sicca eða KCS). KCS getur valdið dýrinu miklum sársauka og óþægindum, og með tímanum valdið sjónskerðingu og jafnvel blindu. Erfitt er að meðhöndla þennan sjúkdóm, og oftar en ekki hætta lyfin að virka, ef þau virka á annað borð. Bólgin tárakirtill skaðar ekki sjónina, því er það algert neyðarúrræði að fjarlægja tárakirtilinn. Margri dýralæknar hafa hinsvegar valið þann kostin, í erfiðum tilfellum þar sem ekkert tjónkar við kirtilinn, að fara milliveg og taka hluta af kirtlinum og saumað hann svo niður. En eins og áður var nefnt er það algert neyðarúrræði.

Ekki er ráðlagt að rækta undan þeim einstaklingum sem hafa kirsuberja ættarsögu. Þó svo dýrið sé parað með heilbrigðu dýri. Hafa ber í huga að eitt megin markmið ræktunar er að búa til nýja einstaklinga sem eru ,,betri” en foreldrarnir.

Neyðarþjónusta
Tímapantanir
Ráðgjöf
Fróðleikur
Vefverslun