Lifrarbólgusmit í hundum

Undanfarna viku hefur verið töluverð umræða um lifrarbólgusmit í hundum.

Borið hefur á aukinni tíðni þessa smitsjúkdóms eftir að hætt var að bólusetja gegn honum v/skorts á bóluefni sem hæfði aðstæðum á Íslandi.

Orsakavaldur smitandi lifrarbólgu í hundum (HCC) er veiran Canine Adenovirus- týpa 1 (CAV-1).

Þessi veira er harðger í umhverfinu og getur lifað þar svo mánuðum skiptir en þolir illa hita (yfir uþb. 60 C) og ýmis sótthreinsiefni eins og Virkon eða klór.

Smitleiðir: bein smitleið milli hunda er með þvagi, saur eða munnvatni úr smituðum hundi en fólk getur einnig borið smit á milli hunda með menguðum fatnað, skóm eða á höndum.Veiran er bráðsmitandi og eina eiginlega vörnin er bólusetning.

Það skal tekið fram að fólk getur ekki smitast af lifrarbólgunni.

Hvað gerist í hundinum?

Veiran fjölgar sér í hálskirtlum hundsins í fyrstunni en færir sig síðar til annarra líffæra, lifrin verður verst úti.

Meðgöngutíminn er 4-10d áður en hundurinn sýnir einkenni en hundur sem sýkist getur smitað umhverfi sitt með því að útskilja veiruna í þvagi í allt að 9 mánuði eftir sýkingu.jafnvel heilt ár.

Helstu einkenni:

Ef um vægt tilfelli er að ræða eru stundum engin einkenni, sumir verða bara slappir og enn aðrir fá einungis blátt auga (bjúgur í hornhimnu) án annarra einkenna.

Þegar hundurinn sýnir einkenni er það oft þrálát uppköst, hár hiti sem toppar inn á milli (yfir 40 C) og mikið slen, eymsli í kviðarholi, hálsbólga og/eða væg hvarmabólga og etv. niðurgangur .

Hjá þeim sem veikjast alvarlegast koma jafnvel fram blæðingar í húð og slímhimnum. Blámi á auga sést oftast þegar dýrin eru að ná sér aftur.

Hvolpar og unghundar eru í mestri hættu á að fá alvarleg einkenni og í versta falli getur sjúkdómurinn leitt til dauða.

Sjúkdómsgreiningin getur verið erfið þar sem ekki er til neitt eitt próf sem staðfestir hann.

Klínisk einkenni ásamt hækkuð lifrargildi og hvítblóðkornafæð er sterk vísbending en endanleg greining fæst aðeins með veirugreiningu eða við sýnatöku úr lifur.

Við á Dýralæknastofunni höfum í auknum mæli stuðst við mótefna-magn-mælingar sem framkvæmdar eru í Svíþjóð og geta þær greint á milli nýsmits eða mótefna frá móður í ungviði eða v/bólusetningar. Þar sem oftast er um að ræða dýr á aldrinum frá 6 mánaða upp í 2ja ára er hægt að útiloka að mótefni stafi frá öðru en smiti þar sem dýr á þessum aldri hafa ekki verið bólusett fram að þessu og eru löngu hætt á spena hjá móður.

Sjúkdómsmeðferðin felst í stuðningsmeðferð. Ekki er hægt að drepa veiruna en hægt er að hjálpa hundinum að vinna á sýkingunni sjálfur. Meðferðin felst aðalega i vökvagjöf í æð, sýklalyfjagjöf, hitalækkandi lyfjum sem hlífa lifrinni og k-vitamini. Verstu tilfellin þurfa oft blóðgjöf eigi þau að eiga möguleika á að lifa af.

Í dag er ekki til neitt eiginlegt bóluefni gegn smitandi lifrarbólgu í hundum sem gefið er undir húð. Ástæðan er sú að það er ekki framleitt eitt og sér heldur einungis sem hluti af margþátta bóluefni og því ekki leyfður innflutiningur þar sem það fæli í raun í sér innflutning á lifandi (en veikluðu) smitefni gegn öðrum hættulegum sjúkdóm.

Bóluefni til varnar gegn lifrarbólgu innihalda hinsvegar ekki hina eiginlegu lifrarbólguveiru, CAV-1 þar sem sú veira er of skæð og veldur hæglega sjúkdómi í dýrum bólusettum með bóluefnum sem innihalda hana. Þess í stað er notast við náskylda veiru – CAV-2 en skyldleikinn veitir vörn gegn lifrarbólgu ásamt sjúkdómi sem veldur barkabólgu í hundum eða “kennel – hósta”.

Það bóluefni höfum við í dag. Það heitir Bronchi-Shield II og er í raun ætlað til bólusetningar gegn kennelhósta eða tracheobronchitis. Í því bóluefni eru 3 veikluð smitefni sem öll koma við sögu hjá kennelhósta : CAV-2, Parainfluenzavirus og bakterian Bordatella bronchiseptica. Þetta bóluefni er ætlað til inngjafar í nös.

Hins vegar er það alveg óþekkt hversu góða vörn það gefur gegn lifrarbólgu í áður óbólusettum dýrum þegar það er gefið í nös eins og þetta bóluefni er ætlað til.

Við leggjum því dáldið út á óráðinn sjó með bólusetningunni ef við ætlum hana gegn smitandi lifrarbólgu.

Skv. veirusérfræðingi á Tilraunastöðinni á Keldum á þetta að veita einhverja vörn.

Hins vegar er mikilvægt að það komi fram að bólusetning með Bronchi-Shield getur valdið sjúkdómseinkennum hjá bólusettum hundum.

Einnig ber sérstaklega að hafa eftirfarandi í huga: Bólusettir hundar geta útskilt Bordatella bronchiseptica bólusetningarstofninn í allt að 7 vikur eftir bólusetningu. Á þessu tímabili ætti fólk með skert ónæmiskerfi að forðast umgengi við bólusetta hunda. Sömu umgengisreglur gilda um dýr með skert ónæmiskerfi eða óbólusett dýr. Kettir og óbólusett dýr sem komast í snertingu við bólusetta hunda geta brugðist við með því að sína væg klínisk einkenni svo sem hnerra og útferð frá nefi og augum.

Bóluefnið hefur ekki verið prófað á öðrum dýrum eins og kanínum og litlum nagdýrum.

Við mælum því með að fólk láti að minnsta kosti bólusetja þau dýr sem eru í mestri hætttu fyrir alvarlegum sjúkdómi, þ.e. hvolpa og unga hundar undir 2ja ára aldri.

Dýr sem eru mikið á ferð á “hundamenningar-stöðum” ætti einnig að bólusetja þar sem líkur á smiti eru mun meiri. Hér er átt við hvers konar sýningar, þjálfunarnámskeið og svo hundahótel. Því fleiri sem eru bólusettir því færri sem verða smitberar og þannig minna smit út í umhverfið.

Skv framleiðanda er bóluefnið ætlað heilbrigðum hundum, 8 vikna og eldri. Ein bólusetning nægir með árlegri endurbólusetningu.

© Hanna M. Arnórsdóttir dýralæknir
Dýraspítalinn Garðabæ

Neyðarþjónusta
Tímapantanir
Ráðgjöf
Fróðleikur
Vefverslun