Ormahreinsun dýra, af hverju?

Flestir dýraeigendur myndu eflaust neita því aðspurðir að dýrin þeirra gætu verið með orma, því hvar ættu þeir svo sem að vera? Hægðirnar líta vel út og dýrin virðast hafa það gott. En einmitt þetta getur verið hættulegt þar sem þau geta verið "heilbrigðir smitberar". Þessi dýr geta smitað önnur dýr, sérstaklega ungviðið og dýr sem hafa minna mótstöðuafl vegna veikinda. Til eru margar tegundir innorma en algengastir hér á landi eru spóluormar og áður fyrr var bandormur mjög algengur.

Spóluormurinn líkist einna helst spagettíi og getur hann orðið allt að 18 cm langur. Fullorðnu ormarnir lifa í görnunum þar sem þeir framleiða egg sem fara með saurnum út í umhverfið. Þaðan geta eggin síðan borist áfram á tvenna vegu, annað hvort beint yfir í annan hund eða kött eða yfir í annan millihýsil.

Bein upptaka ormaeggja af hundi eða ketti. Eggin eru étin eða þau festast á trýni dýrsins við að þefa af saur eða endaþarmi annars dýrs og þaðan fara þau niður í þarmana. En þar með er ekki öll sagan sögð. Eggin verða nú að lirfum sem fara gegnum veggi þarmanna og inn í lifrina og berast svo þaðan til lungnanna. Frá lungunum er lirfunum hóstað upp í kokið þar sem þeim er kyngt og þær þroskast í fullorðna orma í þörmunum. Dæmigert einkenni fyrir dýr sem er sýkt af ormi er því hósti. Þetta ferli sem farið var í gegnum hér að ofan sést helst hjá köttum, hvolpum og hundum sem komnir eru af léttasta skeiðinu eða glíma við aðra skjúkdóma. Hjá heilbrigðum fullorðnum hundum er algengara að lirfurnar leggist í dvala í vefjunum (t.d. í vöðvum).

Ef tík verður hvolpafull, hundurinn veikist eða mótstöðuafl hans minnkar vegna mikils álags, geta lirfurnar sem voru í dvala farið af stað. Hjá hvolpafullum tíkum fara lirfurnar yfir í fóstrin gegnum fylgjuna og hvolparnir fæðast því sýktir af ormi.

Hjá kettlingafullum læðum fara lirfurnar yfir í mjólkurvefinn (júgrin) og kettlingarnir smitast með mjólkinni en þetta sýkingarferli sést líka hjá hundum.

Smit gegnum millihýsil. Þessi smitleið á sérstaklega við um kettina. Millihýsillinn getur verið mús og önnur villt nagdýr, skordýr, ánamaðkar og fulglar sem hafa étið eggin. Eggin verða að lirfum í millihýslinum og kötturinn étur síðan millihýsilinn. Í þörmum kattarins þroskast svo lirfan yfir í fullorðinn orm. Egg spóluormanna eru ótrúlega seig og geta lifað árum saman bæði innan og utandyra, þrátt fyrir vond veður.

Bandormurinn getur orðið allt að 50 cm langur. Hann myndar ekki egg eins og spóluormurinn, heldur fer einn liður af orminum út með saurnum og er þessi liður fullur af eggjum. Þessi liður getur skriðið við endaþarminn eða í skítnum og líkjast eggin einna helst hrísgrjónum. Eggin sem eru í skítnum þurfa á millihýsli að halda t.d. mús, fugli, fló, fiski, innyflum eða hráu kjöti þar sem eggin geta þroskast í lirfur. Ef köttur eða hundur étur síðan millihýsilinn þroskast lirfan í bandorm í görnum þeirra.

Ormahreinsun. Regluleg ormahreinsun er auðvitað mikilvæg fyrir heilbrigði dýrsins, til að efla mótstöðuafl þess og auka virkni bólusetninganna en ekki síður mikilbæg til að vernda umhverfið (önnur dýr, börn og fullorðna) frá því að smitast af ormi. Sem ábyrgum dýreiganda ber manni skylda til að ormahreinsa dýrin a.m.k. 1-2svar á ári.

Meðhöndlun með ormalyfjum. Til eru nokkrar tegundir ormalyfja sem ná til ormanna í görnum dýranna en ekkert lyf nær til lirfa sem liggja í dvala. Skynsamlegt er að ormahreinsa dýrin minnst 1 sinni til 2svar á ári, hvolpa og kettlinga jafnvel oftar. Dýr sem hafa verið ormahreinsuð eru einnig í betra ástandi til að berjast við aðra sjúkdóma. Einnig er mikilvægt að eigendur ormahreinsi dýrin sín reglulega til að koma í veg fyrir fordóma og hræðslu sem stundum grípur um sig þegar rætt er um orma og ormasýkingar. Það er siðferðileg skylda okkar fyrir samfélagið, heilsu dýranna okkar og okkar sjálfra vegna, að standa okkur í þessum málum. Það er ekkert verra en fordómar og vanræksla dýra af völdum fáfræði um smitleiðir og varnir, sem mjög einfalt er að fylgja eftir.

Neyðarþjónusta
Tímapantanir
Ráðgjöf
Fróðleikur
Vefverslun