Útlitsbreytingar á hundum

Þar á meðal skottstýfing, eyrnastýfing og aflimun úlfaklóa.

Hjá ákveðnum tegundum hunda, eins og t.d. Dobermann, Boxer og Stóra Dana hefur verið siður að stýfa eyru þeirra sem annars eru síð og lafandi, þannig að þau verði uppistandandi og stíf. Þetta hefur verið bannað í flestum löndum nema Norður Ameríku, gömlu Austantjaldslöndunum og fl. síðastliðin 30-50 ár. Enn fleiri tegundir eða yfir 70 talsins eru reglulega skottstýfðar skömmu eftir fæðingu, og lengd stubbsins sem skilinn er eftir, fer alveg eftir því hver "standardinn" fyrir skottlengdina er skv. ræktunarmarkmiðum. Bæði þessi inngrip falla undir aðgerð í "kosmetískum" tilgangi eða "fegrunaraðgerðir". Þeirra eina markmið er að breyta útliti hundsins og eru því ekki framkvæmdar í læknis-eða heilsufræðilegum tilgangi.

Hefðin fyrir eyrna-og skottstýfingar nær aftur til 19. aldar. Markmiðið var að fækka tilfellum slæmra sára og sýkinga í eyrum og skottum hunda sem notaðir voru í sérstökum hundabardögum eða hjá varðhundum sem notaðir voru til að verjast rándýrum sem réðust að búpeningi eða fólki. Einnig var hefð fyrir þessu hjá sumum tegundum veiðihunda. Þessar ástæður hafa ekki lengur gildi hvað varðar gæludýrin okkar.

Hvað er gert?

Eyrnastýfingar:

Ef eyrnastýfa á hund er það vanalega gert þegar hvolpurinn er milli 8 og 10 vikna gamall. Undantekning á þessu er Boston Terrier en hann er eyrnastýfður við 5-6 mánaða aldur. Í stuttu máli fer þetta þannig fram að hvolpurinn er settur í djúpa svæfingu og hluti eyrans er klipptur/skorinn burt. Þetta er ytri hluti eyrnablöðkunnar og stærð brottnámsins fer eftir tegundinni sem á í hlut. Eyrun eru síðan bundin upp með sérstökum umbúðum í ýmsum útfærslum og þessar umbúðir þarf að skipta um mjög reglulega. Umbúðirnar þarf hvolpurinn að hafa í allt að 4-5 mánuði eða þar til eyrun geta staðið upp í loft án aðstoðar þessa búnaðar.

Skottstýfing:

Þetta er gert á fyrstu lífdögum hvolpsins þegar hann er 3-5 daga gamall. Rófan er klippt burtu á þeim rófulið sem ræktunarmarkmið segja til um. Hvolpurinn finnur til sársauka við verkið þar sem skurðurinn fer í gegnum margar næmar taugar, bæði í mjúkvefnum og beinhimnunni (er oftast gert án deyfingar). Sárið grær vel svo fremi það komi ekki sýking í það, en það vill oft verða raunin.

Leikmenn nota oft þá aðferð að setja þrönga teygju utan um skottið þannig að hún stöðvar blóðrásina til og frá því og veldur á endanum drepi í því þannig að búturinn dettur af. Þessi aðferð getur ekki talist annað en misþyrming á dýrinu og er hvergi viðurkennd.

Aflimun úlfaklóa:

Aflimunin felst í því að úlfakló á framfótum og jafnvel afturfótum þar sem hún kemur er klippt af á fyrstu lífdögum hvolpsins. Þetta hefur verið gert á nokkrum tegundum bæði snögghærðum og síðhærðum í "fegrunarskyni" og síðan veiðihundum sem fyrirbyggjandi aðgerð vegna meiðsla. Við víkjum síðar að réttmæti þessarar aðgerðar í fyrirbyggjandi tilgangi en hann verður að teljast varasamur.

ATH! ER EKKI KOMINN TÍMI TIL AÐ LEGGJA AF ÞANN LJÓTA SIÐ AÐ BREYTA ÚTLITI HUNDANNA OKKAR EFTIR GEÐÞÓTTA OG HÉGÓMA? HVERNIG VÆRI AÐ BÚA TIL RÆKTUNARMARKMIÐ FYRIR SKOTTIN?

Eru þessar aðgerðir sársaukafullar fyrir hvolpinn?

Já, margar rannsóknir sýna að svo er raunin. Lengi vel var haldið í þau rök að taugakerfi svona ungra dýra væri ekki nógu þroskað til að nema sársaukann en þau rök eru hnigin til viðar með með nýlegum rannsóknum. Það að svona ung dýr geti ekki sýnt sársaukaviðbrögð á sama hátt og fullorðið fólk, þýðir ekki að þau finni ekki til, hvaða viðbrögð vill fólk eiginlega sjá? Hvolparnir sýna svo sannarlega viðbrögð með hljóðum og hreyfingum þegar klippt er á skottið og lífefnafræðilegar rannsóknir sýna að þeir þjást í töluverðan tíma á eftir. Sterkustu rökin í þessu eru rannsóknir á ungabörnum en lengi vel var því einnig haldið fram um þau að taugakerfið væri óþroskað á þeirra fyrstu tveimur lífvikum. Þau voru því ekki deyfð fyrir minni háttar inngrip eins og raunin var ef um fullorðna manneskju væri að ræða. Síðan hafa vísindin sýnt fram á annað.

Þrátt fyrir að eyrnastýfingin er framkvæmd í svæfingu er ekki þar með sagt að hvolpurinn sé laus við sársaukann. Fyrstu umbúðaskiptin eru sársaukafull fyrir dýrið og hinn nýji hundaeigandi og hvolpur hljóta að njóta betur samvistanna í byrjun ef ekki þarf að skipta reglulega um umbúðir á hinum sáru eyrum.

Er ólöglegt að framkvæma þessar aðgerðir?

Í 4. kafla nr. 15, um dýravernd frá 16 mars 1994 segir: Dýralæknum einum er heimilt að framkvæma læknisaðgerðir á dýrum. Undanþegnar eru þó minni háttar aðgerðir og lyfjameðferð í samráði við dýralækni. Þegar aðgerð á dýrum er sársaukafull skal ávalt nota deyfilyf eða svæfa dýrið. Umhverfisráðherra setur í reglugerð nánari fyrirmæli sem takmarka aðgerðir á dýrum sem framkvæmdar eru án læknisfræðilegra ástæðna. (Þessi reglugerð sem nefnd er í síðustu málgrein er ekki enn til, en verið er að vinna að koma því á legg).

Við skulum líta á löndin í kringum okkur.

Í kringum 1950 voru eyrnastýfingar bannaðar með lögum í Danmörku, Noregi og Svíþjóð. Fleiri þjóðir fylgdu í kjölfarið á næstu áratugum svo sem Finnar og Bretar. Skottstýfingar sem ekki höfðu læknisfræðilega ástæðu að baki voru bannaðar í Noregi árið 1988, í Svíþjóð 1989 og í Danmörku 1991 (í Danmörku er þó undanþága fyrir fimm veiðihundategundir. Snökkhærðan og stríhærðan þýskan Vorsteh, Wimeraner, Vislu og Breton). Enn fleiri þjóðir bættust í hópinn árin á eftir. Finnland 1996, Kýpur, Grikkland og Luxenburg 1991. Bretar banna þetta ekki, en skv. lögum þar í landi mega aðeins dýralæknar skottstýfa og breska dýralæknafélagið beinir þeim tilmælum til félagsmanna sinna að skottstýfa ekki nema læknisfræðileg ástæða liggi að baki. Er þar höfðað til siðferðiskendar hvers einstaks dýralæknis. Er einhver ástæða fyrir okkur að vera eftirbátar nágrannaþjóða okkar?

Hvenær er skottstýfing réttlætanleg?

Hægt er að réttlæta skottstýfingu þegar réttmæt læknisfræðileg ástæða liggur að baki, t.d. alvarlegir áverkar svo sem beinbrot, illkynja æxlisvöxtur og þess háttar. Verkið er þá framkvæmt eftir að dýralæknir hefur skoðað hundinn og metið það svo að skottinu verði ekki bjargað eða því verði að fórna til að hundurinn nái heilsu á ný. Það er alveg ljóst að það að skottstýfa hund vegna áverka og þess háttar er ekki daglegt brauð á dýraspítulum heldur fátíður atburður, tíðni meiðsla er ekki há, þrátt fyrir að margir hundar gangi hér um götur með allar gerðir af skottum, snögghærð og loðin. Það, að skottstýfingar eru stundum nausynlegar af læknisfræðilegum ástæðum getur ekki réttlætt að gera það að fastri venju hjá heilu hundategundunum, í fyrirbyggjandi tilgangi.

Hafa hundar þörf fyrir skottið?

Já, skottið þjónar margskonar tilgangi meðal annars við jafnvægisskynið, tjáningu og sund. Hundar hafa þróast árþúsundum saman og í gegnum ræktun höfum við búið til allskyns útfærslur á þeim. Ef skottið væri ekki nothæft fyrir hundinn hefði náttúruvalið sjálft séð um að útrýma því fyrir löngu. Hjá sumum hundategundum í dag fæðast einstaklingar sem eru með vanskaðað skott eða jafnvel bara stúf, en það telst þá ekki eðlilegt og er orsakað af stífri ræktun fyrir eiginleikanum. Staðreyndin er að með mjög fáum undantekningum fæðast flestar hundategundir með langt skott en missa það að tilstuðlan hégóma ræktenda og þeirra tilbúnu ræktunarmarkmiða sem alltof sjaldan miða að því að skapa heilbrigða hunda.

Hver eru rök þeirra sem styðja skottstýfingar og eyrnastýfingar? Talsmenn eyrnastýfinga koma hreint fram og segja einfaldlega að hundurinn sé flottari, meira töff, með stífð eyru. Rök þeirra eru engin og þeir viðurkenna það. Verra er með skottstýfingarnar og aflimun úlfaklóa. Þeir sem mæla fyrir þessu styðjast við sífellt styttri lista "útskýringa". Sem aðalástæðu nefna þeir að skottstýfing fyrirbyggi meiðsl á skottinu. Önnur ástæða er að skottin þurfi að vera stífð til að uppfylla ræktunarmarkmiðin, en það eru í raun rök á móti þar sem þetta tiltekna ræktunarmarkmið þjónar ekki hundinum heldur týskudylgjum mannfólksins sem hefur ákveðið hvernig tiltekin tegund á að líta út.

Hvað varðar veiðihunda þá verðum við að líta á þá staðreynd að flestir þessara hunda eru aldrei notaðir í veiði, þetta eru gæludýr sem ekki eru í áhættuhóp. Hvernig er hægt að réttlæta það að stýfa Rottveiler en ekki Labrador, eða Doberman og Boxer en ekki Dalmatíu hund? Er ekki kominn tími til að leggja af þann ljóta sið að breyta útliti hundanna okkar eftir geðþótta og hégóma? Hvernig væri að búa til ræktunarmarkmið fyrir skottin?

Sá er hér ritar og samstarfsmenn á Dýralæknastofunni í Garðabæ hafa tekið þá ákvörðun að útlitsbreyta ekki hundum eftir óskum í framtíðinni. Skottstýfingar og þess háttar verða aðeins framkvæmdar ef læknisfræðileg ástæða liggur að baki. Þetta er bara spurning um vilja. Við erum vön að sjá ákveðnar tegundir skottlausar og þurfum bara að venjast hinum vinalegu skottum upp á nýtt.

Heimildir: AVA Information Sheet. Artarmon Australia, no 10, feb 2000. Dyrebeskyttelse, dyreværnslov, hundelov, dyreforsögslov, Paulsen Jörgen DDD 1994.

Neyðarþjónusta
Tímapantanir
Ráðgjöf
Fróðleikur
Vefverslun